Sumarvinna fyrir háskólanema – Nýsköpunarverkefni

Heyskapur Neðri

Óskað er eftir umsóknum um starf við verkefni styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnið snýst um bindingu og losun kolefnis í lífrænni ræktun. Megin viðfangsefnið er að skoða bindingu í jarðvegi í ræktuðu landi á Neðra Hálsi í Kjós, þar sem stundaður hefur verið lífrænn kúabúskapur í 25 ár. Nemandi mun verða ráðinn að búinu á Neðra Hálsi en þar mun hann fá aðstoð við sýnatöku, en mun jafnframt fá aðstöðu og aðstoð við vinnslu jarðvegssýna við Landbúnaðarháskóla Íslands. Í lok verkefnis þarf nemandi að skila skýrslu um verkefnið. Biobú ehf er einnig styrktaraðili að verkefninu.

Í boði eru laun í 3 mánuði, og er reiknað með að viðkomandi hefji störf 1.6.2021.

Frekari upplýsingar veita Jón Guðmundsson Landbúnaðarháskóla Íslands jong@lbhi.is og Kristján Oddsson bóndi að Neðra Hálsi kristjan@biobu.is

Eftirspurn eftir upplýsingum um umhverfisáhrif vöru eða þjónustu fer stöðugt vaxandi hjá almenningi og fyrirtækjum. Kröfur um minni losun gróðurhúsalofttegunda eru að aukast samhliða undirskrift Parísarsamkomulagsins og yfirlýstum markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040.  

Það er nauðsynlegt fyrir framtíðina að gera mælingar og kortlagningu á því hvað landið  losar og bindur mikið af koltvísýring og öðrum gróðurhúsaloftegundum við hinar ýmsu aðstæður svo sem í lífrænni ræktun. Það er gott fyrir alla umræðu og seinni tíma ákvarðanir um landnotkun að hafa slíkar tölur tiltækar, frekar en að byggja þær á líkum. Margar skýrslu hafa verið gefnar út og kolefnissreiknivélar settar á stað sem eiga að hjálpa okkur að taka réttar ákvarðanir varðandi búskap og neyslu. Kolefnisreiknivélar gera lítð gagn nema  þær séu byggðar á réttum tölum.

Það þarf að setja kolefnisspor matvæla í fókus, jafnt innlendra sem erlendra innfluttra. Það er jafn mikilvægt og upprunamerkingar. Íslenskir bændur ættu að stefna að því að eyða kolefnissporinu og fara þess í stað að binda og geyma meira kolefni en þeir losa. Á því er fræðilegur möguleiki. Hér þarf að spíta í lófana er varðar rannsóknir á ástandi ræktunarlands og mögulega bindingu við mismunandi aðstæður.

Sjóðurinn er fyrir háskólanema í grunn- og meistaranámi og geta umsjónarmenn innan háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja sótt í sjóðinn vegna starfa fyrir nemendur. Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunnnámi og námi á meistarastigi við háskóla til sumarvinnu að rannsókna- og þróunarverkefnum.