Biobú ætlar að framleiða lífrænt vottað nautakjöt

Biobú, sem hefur sérhæft sig í vinnslu á lífrænt vottuðum mjólkurafurðum, stefnir á framleiðslu á lífrænt vottuðu nautakjöti. Ef allt gengur upp, varðandi umsóknarferlið um vottun fyrir nautakjötið, standa vonir til að kjötið verði komið í verslanir í mars.

Helgi Rafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Biobú, segir að kjötið verði markaðssett undir merkjum Biobú sem hingað til hefur eingöngu framleitt mjólkurvörur frá bæjunum Neðra-Hálsi í Kjós og Búlandi í Austur-Landeyjum. „Eigendur Biobú fóru í stefnubreytingu á síðasta ári og var til dæmis merkinu breytt í þeim tilgangi að útvíkka vöruframboðið,“ segir Helgi Rafn.

Í lok síðasta árs fékk Sláturhús Vesturlands lífræna vottun og hefur Biobú nýlega gert samning við sláturhúsið um að þjónusta slátrun gripa frá Neðra-Hálsi og Búlandi. Helgi segir að sláturhúsið muni sjá um slátrun og fullvinnslu á kjötinu sem kemur frá bæjunum. Á myndinni eru Guðjón Kristjánsson sláturhússtjóri hjá Sláturhúsi Vesturlands, Helgi Rafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Biobú, og Anna Dröfn Sigurjónsdóttir, gæðastjóri Sláturhúss Vesturlands, fyrir utan sláturhúsið.

Bændablaðið sagði frá