Mikil fituneysla

Mikil fituneysla eykur ekki líkur á að veikjast

ÞEIR sem borða mikla fitu eiga ekki frekar á hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma en þeir sem borða litla fitu, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar Margrétar Leósdóttur, læknis og doktorsnema í Malmö, á tengslum mataræðis og tíðni hjarta- og æðasjúkdóma.
Samkvæmt rannsókninni var tíðni hjarta- og æðasjúkdóma álíka há hjá þeim sem borðuðu mikla fitu, þ.e. fita var um 45-50% af fæðu, og hjá þeim sem borðuðu litla fitu, þ.e. fita var minna en 30% af fæðu, en samkvæmt manneldismarkmiðum er mælt með að fituhlutfall fari ekki yfir 30-35%. Margrét segir niðurstöðurnar hafa komið nokkuð á óvart enda hafi því almennt verið haldið fram að mikil neysla á fitu, og þá sérstaklega mettaðri fitu, yki hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.

“Þetta bendir til þess að við höfum verið að horfa í ranga átt með því að einblína á fituna. Vandamálið í dag er að við borðum hreinlega of mikið, þá virðist ekki skipta öllu máli hvort orkan kemur úr fitu, kolvetnum eða próteinum. Ef við borðum meira en við brennum verðum við feit og það er offitan sem er hættuleg,” segir Margrét.

Skiptir ekki máli hvort fitan er mettuð eða ómettuð

Rannsókn Margrétar er hluti af stórri sænskri rannsókn sem hófst árið 1991 en um 30.000 íbúar í Malmö hafa tekið þátt í henni. Er um að ræða heilsukönnun þar sem þættir eins og mataræði, áfengisneysla, reykingar og hreyfing eru skoðaðir í tengslum við ýmiss konar sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma og krabbamein.

Í rannsókn Margrétar kom einnig í ljós að það skipti ekki máli hvort fólk neytti mikillar mettaðrar fitu eða ekki. “Samkvæmt manneldismarkmiðum er mælt með því að mettuð fita sé ekki meira en 10-15% en þeir sem borðuðu helmingi meira magn en það áttu ekki frekar á hættu að fá hjarta- eða æðasjúkdóma en þeir sem fylgdu manneldismarkmiðum,” útskýrir Margrét. Hún segir að taka verði tillit til þess að rannsóknin hafi einungis náð yfir sjö ár og að allir þátttakendur hafi verið á miðjum aldri. Niðurstöðurnar hefðu ef til vill verið aðrar ef mataræði fólks um tvítugt hefði verið skoðað og heilsufar þess svo kannað fjörutíu árum seinna. Hún bendir þó á að tvær nýlegar stórar bandarískar rannsóknir um sama efni sem gerðar voru á lengri tíma hafi gefið svipaðar niðurstöður og hennar rannsókn

Hreyfa sig og borða trefjar, ávexti og grænmeti

Margrét bendir á að þeir sem borða mikla fitu hafi tilhneigingu til að borða mikið yfirleitt og borði auk þess bætiefnasnauðan mat, og það geti verið hluti ástæðunnar fyrir því að menn hafi talið að fitan væri svo mikill skaðvaldur.

“Fólk sem vill vernda sig gegn hjarta- og æðasjúkdómum á fyrst og fremst að passa sig á að borða ekki of mikið, halda þyngdinni á réttu róli. Þá á það að hreyfa sig og borða mikið af trefjum, ávöxtum og grænmeti en það hefur verið sýnt fram á að þessir tveir þættir minnka áhættuna á hjarta- og æðasjúkdómum,” segir Margrét að lokum.

mbl.is sagði frá